• Járnsteypan
  • Járnsteypan
  • Járnsteypan
  • Járnsteypan
  • Járnsteypan
Garðbekkir frá Járnsteypunni í minningarlundi um atburðina í Noregi
27. júní 2013



Mitt á milli Norræna hússins og Hringbrautar gefur að líta nýtilkominn minningarreit um atburðina í Osló og Útey þann 22. júlí 2011. Upphafsmaður að minningarlundinum er Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt, fyrrum forstöðumaður borgaskipulags og stjórnarmaður í Norræna félaginu.

Í minningarreitinn hefur fjórum garðbekkjum frá Járnsteypunni verið komið fyrir innan í hring og aftan við þá hefur ilmreyni verið plantað. Utan hringsins hafa 77 bjarkir verið gróðursettar, ein fyrir hvern einstakling sem lét lífið þennan dag. Reiturinn var formlega vígður á þjóðhátíðardegi Norðmanna þann 17. maí 2013.

„Ég fór að hugsa um það skömmu eftir þessa hörmulegu atburði í Noregi hvernig mætti minnast þeirra og sýna frændum okkar hlýhug og hluttekningu,“ segir Þorvaldur.

„Eftir ýmsar vangaveltur og fundi með góðu fólki var ákveðið að setja reitinn niður í landi Háskóla Íslands rétt við friðlandið í Vatnsmýri og skammt frá Norræna húsinu. Fyrir utan þessa aðila og Norræna félagið komu Skógræktarfélag Reykjavíkur, Reykjavíkurborg og Landmótun að þessu verkefni,“ segir Þorvaldur ennfremur.

Þorvaldur gerði frumdrög að minningarlundinum og Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt hjá Landmótun útfærði hugmyndina og lagaði að hönnun friðlandsins í Vatnsmýri.

„Í lundinum eru fjórir klassískir garðbekkir sem snúa í höfuðáttirnar fjórar. Á bakfjöl þeirra er áletrunin: „Til minningar um atburðina í Noregi 22. júlí 2011.“ Áletrunin er á fjórum tungumálum, ensku, finnsku og norsku, auk íslensku. Við hvern bekk hefur tveimur ilmreynitrjám verið plantað, samtals átta trjám. Þau tákna Norðurlöndin fimm og sjálfsstjórnarsvæðin þrjú. Þegar reynitrén hafa náð meiri hæð og breitt úr sér verða bekkirnir inni í litlum trjálundi og krónur trjánna ná saman,“ segir Þorvaldur.

Við vígsluathöfnina þann 17. maí síðastliðinn flutti Dag Wernerö, sendiherra Noregs, kveðju og kór frá Þrændalögum söng norskt lag.

aletradur-bekkur
Efra borðið í baki garðbekkjanna í minningarlundinum er úr mahoní og á það er letrað á fjórum tungumálum, einu á hverjum bekk.